Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 108/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. mars 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 108/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 28. nóvember 2008. Hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 6. janúar 2009 en þá hóf hann nám í rafiðnaðardeild Tækniskólans. Þar stundaði hann nám á vorönn 2009 frá 7. janúar til 22. maí 2009. Námið var ekki lánshæft. Kærandi kveðst hafa spurst fyrir um það hjá Vinnumálastofnun í upphafi annarinnar hvort hann ætti rétt á styrkjum eða bótum samhliða námi en verið tjáð að þar sem hann yrði í yfir 75% námi ætti hann ekki þann rétt. Í lok annar kveðst kærandi hafa komist að því að maður sem hefði verið í sama námi og hann hefði fengið atvinnuleysisbætur þrátt fyrir vitneskju starfsmanna Vinnumálastofnunar um nám hans. Kærandi vill ekki una því að hafa ekki fengið sömu málsmeðferð og krefst úrbóta og leiðréttingar á því. Vinnumálastofnun telur að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum afturvirkt fyrir þann tíma sem hann stundaði nám.

Í erindi kæranda kemur fram að hann hafi ákveðið að fara í nám á vorönn 2009 eftir að hann hafi orðið atvinnulaus í nóvember 2008 og jafnframt hafi hann skráð sig atvinnulausan. Hann kveðst hafa haft samband við Vinnumálastofnun til að athuga hvort hann ætti rétt á styrkjum eða bótum samhliða náminu, en honum hafi verið sagt að þar sem hann færi í yfir 75% nám ætti hann ekki rétt á því. Kærandi kveðst heldur ekki hafa átt rétt á námsláni og hafi hann því verið tekjulaus þessa önn og ekki séð sér fært að halda áfram á haustönn 2009 eins og stefnt hafi verið að. Kærandi tekur fram að hann hafi nokkrum sinnum haft samband við Vinnumálastofnun vegna þessa, bæði fyrir skráningu í skóla, meðan á námi stóð og eftir að námi lauk og alltaf fengið sömu svör, þ.e. að hann ætti ekki rétt á neinum stuðningi eða bótum. Kærandi tekur einnig fram að öll samskipti við Vinnumálastofnun hafi farið fram símleiðis eða persónulega og hann hafi því engin skrifleg gögn vegna þess. Svo virðist sem ekki séu öll erindi skráð hjá Vinnumálastofnun þó það eigi að vera svo. Kærandi kveðst ekki segja ósatt um samtöl þau sem hann hafi átt við starfsfólk Vinnumálastofnunar.

Kærandi kveðst hafa komist að því hjá samnemanda sínum í lok annar að hann hefði verið á atvinnuleysisbótum alla önnina. Hann sé með námssamning frá Vinnumálastofnun og hefði honum verið bent á að tala við námsráðgjafa á vegum stofnunarinnar. Kærandi telur að þjónustufulltrúar þeir er hann talaði við hefðu átt að benda honum strax á að tala við námsráðgjafa, en það hafi aldrei verið gert.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 27. janúar 2010, er vísað í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Enn fremur er vísað til þess að samkvæmt reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, sem útgefin var 9. janúar 2009, er Vinnumálastofnun heimilað að gera sérstakan námssamning við umsækjendur um atvinnuleysisbætur, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Það sé ljóst að almenna reglan sé sú að ekki sé heimilt að stunda nám samhliða töku atvinnuleysisbóta. Ásamt þeim skilyrðum sem fram komi í ákvæðinu þurfi að gera sérstakan samning við atvinnuleitanda og sé grundvöllur fyrir námssamningi háð mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Þeir sem spyrjist fyrir um námssamninga hjá stofnuninni sé bent á þær reglur sem gildi um námssamninga, sem megi meðal annars finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Sækist viðkomandi eftir því að gera námssamning sé að sjálfsögðu orðið við slíkri beiðni og meti ráðgjafi hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um gerð slíks samnings. Ekkert mat hafi farið fram hjá stofnuninni og engin ákvörðun verið tekin í máli kæranda hvað varði gerð námssamnings enda hafi slík beiðni ekki borist stofnuninni á þeim tíma sem kærandi var að hefja nám.

Kærandi haldi því fram að hann hafi nokkrum sinnum haft samband við Vinnumálastofnun, bæði símleiðis og með samtölum við þjónustufulltrúa stofnunarinnar, til að athuga rétt sinn á því að stunda nám samhliða atvinnuleysisbótum. Í samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun sé ekki að finna færslur um símtöl eða komur kæranda á þjónustuskrifstofur stofnunarinnar á þeim tíma sem hann hafi verið að hefja nám sitt eða meðan á því stóð. Vafalaust geti það gerst að samskipti við umsækjendur hjá stofnuninni séu ekki skráð í tölvukerfi stofnunarinnar en það verði að teljast ólíklegt að engin samtöl við umsækjanda hafi verið skráð á yfir sex mánaða tímabili. Þá verði að líta til þess að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 28. nóvember 2008 og hafið nám þann 7. janúar 2009, tveimur dögum áður en umrætt reglugerðarákvæði hafi tekið gildi. Stofnunin telji því að ekki sé heimilt að gera samning um greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða námi sem kærandi hafi nú þegar lokið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. janúar 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 11. febrúar 2010. Athugasemdir kæranda bárust þann 11. febrúar 2010.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við umsækjendur um atvinnuleysisbætur.

Kærandi kveðst hafa haft samband við Vinnumálastofnun til að athuga hvort hann ætti rétt á styrkjum eða bótum samhliða námi, en honum hafi verið sagt að svo væri ekki. Kærandi kveðst hins vegar hafa komist að því að samnemanda hans hafi verið bent á að tala við námsráðgjafa á vegum Vinnumálastofnunar og hann hafi í framhaldinu gert námssamning sem tryggði honum atvinnuleysisbætur meðan á námi stóð. Kærandi telur að þjónustufulltrúar þeir er hann talaði við hafi einnig átt að benda honum á að tala við námsráðgjafa, en það hafi ekki verið gert. Samkvæmt upplýsingum í greinargerð Vinnumálastofnunar er þeim sem spyrjist fyrir um námssamninga hjá stofnuninni bent á þær reglur er gildi um slíka samninga. Slík beiðni hafi ekki komið fram af hálfu kæranda og því hafi slíkur námssamningur ekki komið til skoðunar.

Upplýsingar í málinu benda til þess að tvö mál sem virðast sambærileg hafi fengið ólíka meðhöndlun af hálfu Vinnumálastofnunar. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvort svo er í reynd eða hvað skýrir hina mismunandi niðurstöðu. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins hvort Vinnumálastofnun hafi gætt leiðbeiningarskyldu sinnar gagnvart kæranda þegar hann óskaði eftir upplýsingum um rétt sinn til atvinnuleysisbóta samhliða námi sínu.

Tilefni virðist til að rannsaka mál kæranda betur og ekki er talið unnt að bæta úr því á vettvangi úrskurðarnefndarinnar. Því er nauðsynlegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun í máli A er felld úr gildi og málinu vísað aftur til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum